Eftir Andra Karl
Félag í 40% eigu Envent, dótturfyrirtækis Geysis Green Energy og Reykjavík Energy Invest, var í gær úthlutað rannsóknar- og nytjaleyfi á jarðhitasvæði á Biliran, sem er ein Filippseyja. Gangi allt að óskum er ráðgert að reisa orkuver sem framleitt geti um 100 MW af rafmagni.
„Þetta er mjög gott mál,“ segir Ásgeir Magnússon, forstjóri Geysis Green Energy. „Þessi samningur festir í sessi vilja þarlendra stjórnvalda til að vinna með okkur og er vissulega áfangi á þeirri leið að koma þarna á fót virkjun.“ Ásgeir telur að um tvö til þrjú ár muni fara í rannsóknir á svæðinu. Á næsta ári verður ráðist í yfirborðsrannsóknir. Gangi þær vel verða boraðar tilraunaholur.
Fari svo að yfirborðsrannsóknir gangi vel og farið verði í boranir, þarf meira fjármagn. Talið er að um fimmtán til sextán milljónir dollara þurfi.
Óvíst er hvort REI muni taka þátt í þeim hluta eða hvort leitað verður annarra fjármögnunarleiða.