Íslensk leiktæki eru skoðuð einu sinni ári samkvæmt reglugerð Vinnueftirlitsins, en erlend leiktæki þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að leyfi fáist fyrir rekstri þeirra hér á landi, að sögn Georgs Árnasonar hjá Vinnueftirlitinu.
Slys varð í skemmtigarðinum Liseberg í Gautaborg í Svíþjóð í gær og slösuðust um 30 manns þegar klefi losnaði á leiktæki, og féll um 3 metra. Framkvæmdastjóri skemmtigarðsins segir að leiktækið hafi verið yfirfarið í vor og þá verið í fullkomnu lagi. Vinnueftirlitið sér um eftirlit á íslenskum leiktækjum, sem eru m.a í Húsdýragarðinum og hjá Sprell. Georg segir að samkvæmt reglugerð sé farið yfir ástand tækjanna og umhverfi þeirra, einu sinni á ári.
Á undanförnum árum hafa ferðatívolí með erlendum leiktækjum verið sett upp m.a á Hafnarbakkanum í Reykjavík og í Smáralind. Aðspurður um öryggi og eftirlit erlendra tækja segir Georg að þau tæki sem hafa verið flutt hingað til lands séu skoðuð af skoðunarfyrirtæki í Bretlandi, sem sérhæfir sig í að skoða leiktæki og að reglugerð evrópska efnahagssvæðisins um vélknúin leiktæki sé fylgt.
„Það sem við gerum svo hér er að skoða uppsetningar, hvort merkingar séu á íslensku, tækin séu tryggð og skoðunarpappírar í gildi," segir Georg og bætir við að ef þessi skilyrði eru ekki fyrir hendi fæst ekki leyfi fyrir rekstri þeirra.
Sækja þarf um rekstarleyfi hér á landi til þess að setja upp leiktækjaaðstöðu. Að sögn Georgs koma tveir aðilar hjá Vinnueftirlitinu að eftirliti með slíkum rekstri. Vinnuvéladeild sér um vélbúnað, og fyrirtækjaeftirlitið gefur út leyfi. Skilyrði fyrir rekstrarleyfi eru m.a fullnægjandi aðstaða starfsfólks, merkingar, öryggi í kringum hlið, og að hliðarverðir og stjórnendur séu 18 ára eða eldri. Sýslumaður viðkomandi umdæmis gefur svo út starfsleyfi eftir umsögn Vinnueftirlitsins.