„Ég get lofað ykkur því að ég fer aldrei aftur í sjóinn og aldrei aftur í sundlaug," segir sundkappinn Benedikt Hjartarson hlæjandi en hann synti yfir Ermarsund í gær fyrstur Íslendinga. „Ég hef verið að segja þetta við strákana hérna en það er nú svona meira í gríni."
Benedikt sagði, er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í morgun, að hann væri afskaplega feginn því að sundinu væri lokið. Þetta sé ákveðinn áfangi og að með honum sé ákveðinn kafli í lífi sínu bara búinn. Hann hafi þó enn ekki áttað sig almennilega á hlutunum eða ákveðið hvað hann geri næst.
„Ég finn ekki fyrir tómleika, ekki ennþá að minnsta kosti. Er bara rosalega feginn því að þetta sé í höfn. Þetta hafa verið geysilega miklar æfingar allt síðasta árið, sex daga í viku oft þrisvar á dag," segir hann.
Benedikt segist lítið hafa sofið í nótt vegna spennu og sjóriðu. „Loftið í herberginu var á fleygiferð," segir hann. Þá segir hann grafa í úfinum á hálsinum á sér, þar sem saltið hafi brennt húðina, en hann hafi gert ráð fyrir því að það myndi gerast og því gert viðeigandi ráðstafanir.
„Ég er líka með þreytuverki í upphandleggjunum en það er þannig þegar maður syndir þetta langt á skriðsundi að þá notar maður fæturna voða lítið nema sem jafnvægistæki," segir hann. Benedikt fékk krampa í fæturna á fyrri helmingi sundsins og gat því ekki synt bringusund, inn á milli til að hvíla sig, fyrr en á síðari helmingi leiðarinnar. „Ég hafði gert ráð fyrir að synda svona fimm mínútur á hverjum klukkutíma á bringusundi til að hvíla mig en það gekk ekki til að byrja með," segir hann.
„Þetta kom mér á óvart þar sem ég hef aldrei áður fengið krampa en það var ekkert annað að gera en að taka því."
Hann segir það einnig hafa komið sér skemmtilega á óvart hversu góðar viðtökur hann hafi fengið hjá öðrum sundmönnum er hann kom í land. „Það eru hérna allra þjóða kvikindi að reyna þetta og það er mjög mikil samstaða í hópnum," segir hann. „Fólk flykkist að manni þegar maður er búinn að klára til að samfagna manni."
Benedikt synti 61 km leið á 16 klukkutímum og einni mínútu og segir það vera um 48.000 skriðsundtök.