Ekkert verður af fyrirhuguðu boðsundi Sjósundlandsliðs Íslands yfir Ermarsund í dag. Til stóð að hefja sundið klukkan tíu í morgun að íslenskum tíma en þegar út var komið, til að kanna aðstæður, var bræla. Þá kom upp bilun í gírakassa báts hópsins og bíður hann þess nú að dráttarbátur sæki hann þar sem hann rekur úti fyrir Dover. Þetta kemur fram á vefnum Ermarsund.com.
Fyrr í morgun var talið ólíklegt að af sundinu gæti orðið vegna slæms sjólags og veðurútlits. Skipsstjórinn Andy King ákvað síðan að bjóða hópnum að reyna eftir að hafa kannað aðstæður betur og komist að þeirri niðurstöðu að möguleiki væri á því að hópurinn gæti lokið sundinu.