Benedikt S. Lafleur, sem stefnt hefur að því að synda yfir Ermarsund, segir ákveðinni spennu af sér létt eftir að Benedikt Hjartarsyni tókst að synda yfir sundið í gær fyrstum Íslendinga. Þá segist hann óska nafna sínum hjartanlega til hamingju. Þetta hafi verið alveg frábært árangur hjá honum og hann sé mjög stoltur af honum.
„Ég er ekkert hættur en þetta léttir heilmikið á spennunni," sagði hann er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. „Það má eiginlega segja að við höfum verið að keppa okkar á milli um það hvor okkar yrði fyrstur. En þetta er bara alveg frábært "
Benedikt segir það sennilega hafa ráðið úrslitum í því að nafni hans varð á undan honum til að komast yfir sundið að hann sé betri sundmaður og auk þess hafi aðstæður alltaf mikið að segja þegar reynt sé við sund yfir Ermarsund. „Hann er sennilega í betra formi heldur en ég og hann er betri sundmaður. Hann er hraðskreiðari og þetta tekur hann því skemmri tíma. Sennilega hef ég þó meira kuldaþol en hann. Það skiptir líka máli að hann hafði greinilega mjög vanan skipstjóra og síðan voru veður og aðrar aðstæður viðráðanlegar."
Benedikt segist fagna áfanga nafna síns og finna fyrir ákveðnum létti. Ermarsundið togi þó áfram í sig. Þar sem kapphlaupi þeirra nafnanna sé nú lokið muni hann þó hugsanlega taka sér lengri tíma áður en hann reyni við það næst.
Það geti þó hugsast að hann reyni aftur næsta sumar. Nú sé hann hins vegar að skoða Drangeyjarsund en sjórinn við Ísland hafi ekki verið alveg nógu hlýr til að reyna það fram að þessu. „Það er sennilega næsta áskorun en svo eru auðvitað ýmsar aðrar áskoranir líka. Það er allt fullt af áskorunum vilji maður takast á við þær," sagði hann.