Engir ísbirnir fundust

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við leitina að hugsanlegum ísbjörnum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði við leitina að hugsanlegum ísbjörnum. bb.is/Halldór

Leitað var á Hornströndum í nótt að hugsanlegum ísbjörnum, sem ferðafólk á svæðinu taldi sig hafa séð í gærkvöldi. Leitað var bæði úr lofti og af sjó en ekkert fannst og segir lögreglan á Ísafirði, að líklegt sé að um missýn hafi verið að ræða.

Lögreglan á Vestfjörðum fékk tilkynningu klukkan  21 í  frá gönguhópi, sem var á ferð skammt frá Hvannadalsvatni  milli Hornvíkur og Hælavíkur á Ströndum. Taldi fólkið sig hafa séð tvo ísbirni á ferð í svonefndum Skálakambi. Sáu göngumennirnir sáu tvo hvíta bletti í fjallinu, sem voru horfnir þegar þeir komu þangað aftur nokkru síðar.

Þar sem vitað var að á svæðinu eru margir ferðamenn, fór lögregla að kanna með mannaferðir þarna, með það fyrir augum að tryggja öryggi þeirra sem þarna voru. 

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði var kallað út og það sent áleiðis norður á Hornstrandir með tvo lögreglumenn um borð.  Þá var þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, send vestur til að aðstoða við leit á svæðinu.  Einnig var haft samband við ferðaþjónustuaðila sem sjá um ferðir með ferðamenn á Hornstrandir og rætt við menn sem þekkja svæðið vel. 

Upp úr miðnætti var þyrla gæslunnar kominn á svæðið og var búið að hafa samband við þá ferðamenn sem vitað var um að væru þarna og þeir látnir vita. Þyrlan leitaði svæðið fram til kl. 2:30 að hún snéri til Ísafjarðar og í framhaldi af því var farið yfir stöðuna. Var síðan ákveðið að hætta frekari aðgerðum þar sem talið var líklegt að um missýn hafi verið að ræða. 

Lögreglan á Vestfjörðum segir, að allar svona tilkynningar séu teknar alvarlega og málin skoðuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert