Um tvöhundruð manns bíða eftir hjartaþræðingu. Biðtími getur verið allt að sjö mánuðir sé ekki um bráðatilfelli að ræða. Björn Zoega starfandi forstjóri Landspítalans vonast til að hægt verði að útrýma biðlistum með nýrri hjartaþræðingastofu sem tekur til starfa í nóvember.
Samningar um kaup á nýju hjartaþræðingatæki voru undirritaðir í morgun.
Heildarkostnaður við nýju stofuna er eitthundrað og fjörutíu milljónir þar af leggur Landspítalinn til fjörutíu milljónir í byggingakostnað.
Gjafa og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur gefur 75 milljónir en hann hefur átt stóran þátt í að efla hjartalækningar á spítalanum og studdi meðal annars kaup á öðru hjartaþræðingatæki árið 2001.
Samtökin Hjartaheill sem fagna 25 ára afmæli um þessar mundir leggja fram tuttugu og fimm milljónir. Þá ætla samtökin að efna til landssöfnunar en takmarkið er að safna fimmtíu milljónum á afmælisárinu og rennur allt það fé sem safnast til hjartalækninga á Landspítala.