Um helgar á sumrin myndast oft langar bílaraðir á helstu þjóðvegunum í nágrenni Reykjavíkur og umferðin gengur hægt. Það kemur fyrir að ökumenn missa þolinmæðina og reyna að aka fram hjá allri röðinni þótt þar sé bíll við bíl og þröngt að aka inn í röðina aftur komi bíll á móti.
Myndir náðust af slíkum framúrakstri á Suðurlandsvegi sl. sunnudagskvöld. Einar Magnús Magnússon hjá Umferðarstofu segir, að sem betur fer sjáist svona nokkuð ekki oft en þó séu því miður örfáir ökumenn, sem sýni af sér viðlíka ábyrgðarleysi gagnvart sjálfum sér og öðrum.
„Ökumaðurinn sem við sjáum á myndbandinu brýtur þarna nánast allar reglur sem hægt er að brjóta, hann viðhefur þarna mjög alvarlegt gáleysi. Og hann græðir ekkert á þessum akstri,“ segir Einar.
Einar sagði að allir ökumenn með sæmilega reynslu vissu að í svona aðstæðum, þegar umferð væri mikil og hæg, væri það best fyrir alla að halda jöfnum hraða og sýna tillitssemi. Það eina sem menn hefðu upp úr krafsinu með gáleysi væri aukin áhætta.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagðist hvetja fólk til þess að senda inn tilkynningar um svo vítaverðan akstur. Athugasemdir væru skráðar í dagbók lögreglu, yfirleitt undir bílnúmeri, og málið væri gjarnan kannað betur.
Ef ástæða þyki fá ökumenn tiltal frá lögreglu. Eftir stæði líka að athugasemdin væri komin í dagbók lögreglunnar og hægt væri að fletta þar upp bílnúmerinu. Ef margar kvartanir bærust vegna sama bílnúmers komi það fram fyrir rétti ef menn kæmu seinna fyrir dóm vegna umferðarlagabrots.