Ennþá er leitað að erlendum karlmanni í hlíðum Esjunnar og eru nú um 120 manns við leit, ásamt átta hundum. Sökum sviptivinda og slæmra aðstæðna eru þyrlur hættar leit í bili.
Veldur það áhyggjum að nú er orðið kalt í hlíðum fjallsins og maðurinn án klæða.
Tvær konur sáu til mannsins þar sem hann gekk nakinn ofarlega í fjallinu um hádegisbil í dag.
Föt mannsins fundust neðan við Þverfellshorn í um 200 metra hæð. Sömuleiðis fundust þar skilríki og bíll hans fannst á bílastæðinu neðan við fjallið.