Björgunarsveitarmenn fínkemba Esjuna

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðar við leitina í dag. mbl.is/hag

Um 30 björgunarsveitarmenn hafa nú það verkefni að fínkemba Esjuna í leit að karlmanni á þrítugsaldri, sem gekk nakinn á fjallið í gær. Að sögn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eru leitarskilyrði betri í dag heldur en í gær. Ekkert hefur sést til mannsins í tæpan sólarhring.

Ingólfur Haraldsson, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, segir engar nýjar vísbendingar hafa fundist í dag, en leit hófst af krafti á ný um kl. átta í morgun. Hann segir aðstæður á fjallinu vera betri í dag heldur en í gær. Það sé hlýrra og þá sé þokan farin. Þá aðstoðar þyrla Landhelgisgæslunnar við leitina í dag.

„Það er verið að kemba alla Esjuna núna,“ segir Ingólfur og bendir á að búið sé að leita mjög vel á svæðinu sem sé næst þeim stað þar sem síðast sást til mannsins. 

Aðspurður um hvort leitarmönnum verði fjölgað í dag segir Ingólfur: „Við ætlum að reyna að klára þessi verkefni sem liggja fyrir. Það er búið að skipuleggja ákveðið mörg leitarsvæði. Það liggur fyrir að reyna klára þau, fara hluta af þessum leitarsvæðum tvisvar sinnum og taka svo stöðuna eftir það.“

Síðast sást til mannsins þegar hópur göngumanna mætti honum í um 600 metra hæð um hádegisbil í gær. Maðurinn var nakinn og lét hópurinn lögreglu vita. 

Föt mannsins fundust neðan við Þverfellshorn í um 200 metra hæð. Sömuleiðis fundust þar skilríki og bíll hans fannst á bílastæðinu neðan við fjallið.

Þeir sem vita um ferðir mannsins eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 444 1100.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka