Tekjur hafa hækkað talsvert hér á landi síðasta áratug. Hið opinbera nýtur þess í formi hærri opinberra gjalda sem þessir einstaklingar greiða. En það er fleira en mikil hækkun sem kemur í ljós þegar tekjuþróun og opinber gjöld undafarinn áratug eru skoðuð. Þeir sem greiða hæstu opinberu gjöldin eru ekki lengur kvótakarlar, heldur fyrst og fremst banka- og kaupsýslufólk, sem býr nær allt á höfuðborgarsvæðinu.
Ýmislegt forvitnilegt kemur í ljós þegar álagningarseðlar þeir sem lagðir voru fram í vikunni eru bornir saman við þau opinberu gjöld sem greidd voru fyrir áratug.
Skattakóngur árið 1998 var Þorvaldur Guðmundsson, oft kenndur við Síld og fisk, en hann greiddi tæpar 46 milljónir í opinber gjöld vegna tekna ársins 1997.
Samkvæmt framreiknuðum opinberum gjöldum Þorvaldar greiddi hann um 69 milljónir í opinber gjöld vegna ársins 1997, ef miðað er við breytingar á meðaltali vísitölu neysluverðs árin 1997 til 2007, þ.e. árin sem launin, sem gjöldin nú og fyrir áratug stafa af, voru greidd.
Athyglisvert er einnig að sjá að samanlög opinber gjöld þeirra 15 einstaklinga sem mestu gjöldin greiddu samkvæmt álagningarseðlum árið 1998, er ekki nema einn tíundi þess sem 15 hæstu greiða nú. Heildargjöld þessa hóps fara úr tæpum 338 milljónum í tæpa 3,8 milljarða.
Til samanburðar hefur samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars á sama tímabili rúmlega tvöfaldast, eða vaxið úr 100,8 milljörðum á núvirði í 213,6 milljarða.
Fyrir áratug voru hins vegar sjö af þeim fimmtán sem greiddu hæstu opinberu gjöldin skráðir utan höfuðborgarsvæðisins, þar af sex á Suðurnesjum.
Ef marka má þennan samanburð hefur hlutur kvenna í hópi auðmanna vænkast. Engin kona var á meðal þeirra fimmtán sem greiddu hæstu opinberu gjöldin fyrir áratug. Nú eru þær hins vegar þrjár; þær Ingunn Gyða Wernersdóttir, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir og Jóhanna H. Sigurðardóttir.