Maður meiddist á hendi þegar verið var að sjósetja gúmmíbát í Bakkafjöru í Austur-Landeyjum undir kvöld. Eitthvað hefur verið um það um helgina, að siglt hefur verið milli lands og Vestmannaeyja með fólk, sem vildi komast á Þjóðhátíð en í dag hefur ekki verið hægt að fljúga til Eyja frá Bakkaflugvelli.
Í gær strandaði hraðbátur við Markarfljótsós og voru tveir menn, sem voru um borð, fluttir á slysadeild.
Nokkur slys hafa orðið í Rangárvallasýslu í dag. Kona á miðjum aldri var flutt á sjúkrahús í Reykjavík eftir að hún datt af hesti á Árbæjarvegi skammt frá bænum Snjallsteinshöfða í Rangárþingi ytra. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var ekki talið að konan hefði slasast alvarlega.
Þá meiddist maður þegar hann féll af fjórhjóli við bæinn Ármót í Vestur-Landeyjum í morgun.