Talið er að um 3000 manns bíði eftir flugi í Vestmannaeyjum. Ekki var hægt að fljúga þangað í morgun vegna þoku en henni hefur nú létt og er flug á Bakkaflugvöll að hefjast. Þá eru komnar vélar frá Flugfélagi Íslands til Eyja.
Búast má við mikilli umferð á flugvellinum í Eyjum í dag ef þokan heldur sig fjarri.
Herjólfur fór fyrstu ferð sína af þremur í dag og er talið að á sjötta hundrað manns hafi verið með skipinu þegar það lagði af stað til lands um klukkan 11:30.
Að sögn Tryggva Más Sæmundssonar, framkvæmdastjóra þjóðhátíðarnefndar, er áætlað að um 2700 manns eigi bókað far frá eyjum með Flugfélagi Íslands og Flugfélagi Vestmannaeyja og áætlað sé að um 300 manns hafi ætlað að fara með einkavélum.
Tryggvi sagði, að veður væri gott í Vestmannaeyjum þrátt fyrir súld. Þar er algert logn og því hefur þokan verið þaulsætin. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að opna íþróttahús bæjarins fyrir þjóðhátíðargestum þar sem vel fer um þá á tjaldstæðunum þótt nokkur rigningarúði sé. Samráðsfundur verður haldinn með lögreglu og fleirum eftir hádegið þar sem farið verður yfir málin.
Tryggvi sagði að þjóðhátíðin hefði tekist afar vel þrátt fyrir að þar hafi verið um 13 þúsund manns. Leikið var fyrir dansi á báðum danspöllum til klukkan 6 í morgun en þá var ákveðið að stöðva hljómsveitirnar, þótt oft hafi verið leikið lengur á lokaballi þjóðhátíðar, þar sem Herjólfsdalur var að breytast í drullusvað.