,,Getum ekki verið annað en ánægðir"

Umferð helgarinnar gekk vonum framar.
Umferð helgarinnar gekk vonum framar. Ómar Óskarsson

Umferðin um verslunarmannahelgina gekk stóráfallalaust fyrir sig. Umferðarráð segir að ökumenn hafi betri skilning á öryggistækjum en áður og eins létti stórar umferðarhelgar í júlí af ákveðnum þrýstingi.

Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu sagði menn ekki geta verið annað en ánægða með helgina.

„Þetta gekk bara vonum framar. Engin alvarleg slys. Auðvitað er alltaf eitthvað um hraðakstur en lögreglan sinnti sínum verkefnum með miklum sóma,“ segir Sigurður.

Hann segir að ýmislegt stuðli að því að banaslys séu ekki eins tíð og áður. Þekking á notkun öryggisbúnaðar hafi aukist og sömuleiðis skilningur á nauðsyn hans. Þetta sé öryggisbúnaður eins og öryggisbelti og viðeigandi búnaður fyrir börnin. Þetta skipti sköpum.

Að mati Sigurðar eru Íslendingar yfirleitt ágætis ökumenn og að tekist hefði að koma á hugarfarsbreytingu hjá fólki. Því óaði meira við slysum en áður og orsökin væri sennilega sú að fólk fylgdist betur með. Fréttaflutningur væri orðinn þannig að slysin færðust nær fólki og það hefði áhrif.

„Svo dreifist umferðin þessa helgi líka mun meira en áður og í rauninni er hægt að tala um Verslunarmannaviku. Fólk fer fyrr af stað og kemur síðar heim. Það myndast því nánast engir umferðartappar og önnur tengd vandamál,“ segir Sigurður.

Aðrar helgar í júlí eru sömuleiðis orðnar miklar ferðahelgar og taldi Sigurður að það létti líka á ákveðnum þrýstingi og ætti þannig sinn hlut í hversu vel gekk þessa helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert