Jón Gauti Jónsson viðskiptafræðingur er látinn, 62 ára að aldri.
Jón Gauti fæddist á Ísafirði hinn 29. desember 1945, sonur hjónanna Jóns Gauta Jónatanssonar og Guðrúnar Kristjánsdóttur.
Jón Gauti gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum um ævina. Árin 1972 til 1974 var hann sveitarstjóri Búðahrepps, Fáskrúðsfirði, og síðan sveitarstjóri Rangárvallahrepps, Hellu, til ársins 1978. Árið 1979 tók hann við stöðu bæjarstjóra Garðabæjar og gegndi því starfi til ársins 1987.
Jón Gauti gegndi einnig ýmsum ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu og var m.a. starfsmanna- og fjármálastjóri Scanhouse Nigeria í Lagos árin 1978 til 1979 og framkvæmdastjóri Stálvíkur 1987 til 1990.
Jón Gauti lét sig félagsmál varða og var virkur í Lionshreyfingunni til fjölda ára.
Árið 1966 kvæntist Jón Gauti Hallgerði Pétursdóttur. Þau skildu. Seinni kona hans var Hólmfríður Árnadóttir. Jón Gauti lætur eftir sig eiginkonu og þrjú börn úr fyrra hjónabandi.