Lögregla rannsakar siglingar til Eyja

Bændur í Landeyjum draga hraðbát, sem strandaði í Bakkafjöru á …
Bændur í Landeyjum draga hraðbát, sem strandaði í Bakkafjöru á laugardaginn. mynd/Arnþór Ragnarsson

Kjartan Þorkelsson, sýslumaður á Hvolsvelli, segir hafin verði rannsókn á því hvort lög hafi verið brotin við flutning á fólki með bátum milli Bakkafjöru í Landeyjum og Vestmannaeyja um síðustu helgi.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að hópur fólks, sem beið á Bakka á sunnudag eftir að viðraði til flugs, hefði á endanum verið flutt með hraðbát og síðan trillu til Eyja. Fólkið fékk ekki björgunarvesti á leiðinni. Trillan sem flutti fólkið hefur ekki leyfi til farþegaflutninga en farþegarnir voru látnir greiða 7000 krónur fyrir ferðina.

Helgi Jóhannesson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun, sagði að aðeins eitt skip hefði heimild til farþegaflutninga milli lands og Eyja, en það sé Herjólfur. Þá þurfi björgunarvesti, gúmmíbjörgunarbát og annan öryggisbúnað í alla báta. Trillur séu ekki nýttar til farþegaflutninga og ekki hraðbátar heldur. Sagði hann ljóst, að lögreglan ætti að taka málið til rannsóknar.

Fleiri dæmi voru um fólksflutninga milli Bakkafjöru og Eyja um helgina og strandaði m.a. hraðbátur við Markarfljótsósa á laugardag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert