„ÉG fæ ekki séð hvaða hagsmunir mannsins það eru í stuttu máli aðrir en þeir að geta nálgast fyrrverandi sambýliskonu sína og jafnvel ofsótt hana,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs, um dóm Hæstaréttar.
Rétturinn staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms þess efnis að ekki væru fyrir hendi skilyrði til að framlengja nálgunarbann gegn fyrrverandi sambýlismanni konu, sem kært hafði hann fyrir líkamsárás og kynferðisofbeldi. Einn dómari af þremur skilaði sératkvæði og vildi framlengja nálgunarbannið.
Konan hefur kært manninn vegna langvarandi og alvarlegs kynferðisofbeldis, sem hún segir að hafi staðið yfir frá vorinu 2005. Kynferðisbrotin eru til rannsóknar hjá lögreglu.