Hlaup hafið í Skaftá

Litið yfir beljandi og leirlitaða Skaftána frá jökulsporðinum, þegar hljóp …
Litið yfir beljandi og leirlitaða Skaftána frá jökulsporðinum, þegar hljóp í henni árið 2006. Til hægri á mynd eru Fögrufjöll. mbl.is/RAX

Samkvæmt upplýsingum frá Vatnamælingum Orkustofnunar er hlaup hafið í Skaftá og var rennsli hennar við Sveinstind um 280 rúmmetrar á sekúndu í morgun. Rennsli í Skaftárhlaupum hefur oft farið yfir 1000 rúmmetra á sekúndu við Sveinstind. Fólki er ráðlagt  að vera ekki nálægt upptökum Skaftár vegna  brennisteinsmengunar frá ánni. 

Upptök Skaftár eru úr Skaftárjökli í Vatnajökli austan við Langasjó.  Ef verulega vex í ánni er hætta á að vatn flæði yfir veginn við Hólaskjól rétt við Eldgjá á Nyrðra fjallabaki. Náið er fylgst með framgangi hlaupsins, segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Síðasta hlaup í Skaftá var í apríl árið 2006 en þar áður varð hlaup í ágúst 2005. Alls hafa vatnamælingar Orkustofnunar mælt 43 hlaup í Skaftá en það fyrsta sem stofnunin fylgdist með, varð árið 1955. Þá hættu hlaupin að fara inn í Langasjó og bárust ótafin út í Skaftá.

Skaftárhlaup koma úr tveimur kötlum í Vatnajökli og er talið að hlaupið nú komi úr þeim vestari. Þar eru jarðhitasvæði sem bræða jökulinn án afláts en vatnið sleppur ekki burt vegna þess að þar er lægð í yfirborð jökulsins. Hlaup úr eystri katlinum eru jafnan stærri en þau sem koma úr vestari katlinum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka