Aukið rennsli í Skaftá

mbl.is/Jónas Erlendsson

Rennsli í Skaftá við Sveinstind hefur aukist í kvöld en það mælist nú rúmir 370 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið virtist hafa náð hámarki um miðnætti í nótt þegar það var 364 rúmmetrar. Það var komið niður fyrir 350 rúmmetra um hádegið en fór síðan að aukast á ný og hefur aukist jafnt og þétt fram á kvöld.

„Það kom mér á óvart að þetta skyldi aukast svona, en hins vegar er þetta sáralítið. Það er ennþá bara 360-70 rúmmetrar á sekúndu. Í stóru Skaftárhlaupunum þá fer þetta upp í 12, 15 jafnvel 1800 rúmmetra á sekúndu,“ segir Oddur Sigurðsson, sérfræðingur á sviði jöklafræði hjá Vatnamælingum Íslands. Hann segist ekki vita hvað valdi þessu hökti í hlaupinu.

Oddur bendir á að lítil hlaup eigi það til að vera lengi að detta niður. „Þetta er bara skemmtilegt tilbrigði, en þetta er ennþá smáhlaup,“ segir Oddur og bætir því við að hann eigi ekki von á því að rennslið muni aukast mikið meira.

Aðspurður segir hann eystri ketilinn vera kominn á tíma, en hlaupið nú kemur úr þeim vestari. Hann segir að sér þætti það skrýtið ef ekkert hlaup kæmi úr eystri katlinum á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka