Skaftárhlaup í rénun

Síðdegis í gær, er þessi mynd var tekin við bæinn …
Síðdegis í gær, er þessi mynd var tekin við bæinn Skaftárdal, var enn að vaxa í ánni. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hlaupið í Skaftá er nú í rénun, en það náði hámarki undir miðnættið í gær, er það fór í rúma 264 rúmmetra á sekúndu við Sveinstind. Rennslið er nú 352 rúmmetrar. Hlaupið núna telst lítið, því að stærst verða Skaftárhlaup allt að 1800 rúmmetrar. Hlaupið kemur líklega úr vestari katlinum í Skaftárjökli. „Það kemur ekki úr þeim austari, svo mikið er víst. En við vitum ekki hvort það gæti mögulega komið annars staðar frá. Það er þó langlíklegast að hlaupið komi úr vestari katlinum,“ segir Oddur Sigurðsson, sérfræðingur á sviði jöklafræði hjá Vatnamælingum Íslands.

Undir vestanverðum jöklinum eru tvö jarðhitasvæði sem stöðugt bræða jökulinn og mynda stöðuvötn. Yfir stöðuvötnunum er þungur jökull og því sleppur loft ekki svo auðveldlega út. Brennisteinsvetni myndast og helst undir jöklinum. Á um tveggja ára fresti streyma stöðuvötnin svo fram líkt og nú og þá fyrst sleppur brennisteinsvetnið út.

Soffía Sigurðardóttir, skálavörður í Nýjadal, segir að þýskur göngumaður á Sprengisandi og tveir liðsmenn Hjálparsveitar skáta í Vonarskarði, hafi heyrt drunur í Vatnajökli á föstudagskvöld.

„Við vissum ekki hvað þetta gæti verið og datt helst í hug að þetta hefði aðeins verið tröllagangur! Okkur fannst það prýðileg útskýring á látunum í jöklinum. Svo þegar við heyrðum af hlaupinu vorum við viss um að tröllin hefðu einfaldlega lyft jöklinum upp og valdið hlaupinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka