Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir hafa legið fyrir lengi að innrásin í Írak hafi verið ólögmæt og ranglega hafi verið staðið að ákvörðun um stuðning við hana að hálfu íslenskra stjórnvalda.
Hingað til hefur því verið haldið fram að Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hafi tekið ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið þegar ósk um það barst frá bandarískum stjórnvöldum 18. mars 2003. Í nýrri grein Vals Ingimundarsonar í bók um íslenska utanríkisstefnu, kemur hins vegar fram að daginn áður hafi bresk stjórnvöld fengið grænt ljós frá Íslandi. Halldór Ásgrímsson segist hinsvegar ekki hafa verið í neinum samskiptum við breska sendráðið eða Breta um þetta mál.
Séu þær upplýsingar réttar sem koma fram í grein Vals Ingimundarsonar hefur ekki verið sagt satt og rétt frá um hvernig ákvörðun um að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða var tekin.
Samfylkingin talaði fyrir því á sínum tíma að óháð rannsóknarnefnd yrði fengin til að skoða allan feril málsins gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Inibjörg Sólrún Gísladóttir segir hinsvegar aðalatriðið nú að stuðningurinn hafi verið ólögmætur og framhaldið tilheyri sögunni og sé viðfangsefni sagnfræðinga.