Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri REI og Orkuveitunnar, hefur stofnað nýtt fyrirtæki, Reykjavík Geothermal, sem starfa mun að verkefnum á sviði jarðvarma. Fyrirtækið var stofnað 8. ágúst síðastliðinn, að sögn Guðmundar „til að nýta dagsetninguna". Hún sé svo skemmtileg. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Guðmundur hefur áður sagt að um tuttugu milljarðar séu lágmarksstofnfé fyrir fyrirtæki af þessum toga. Hann staðfestir að það sé upphæðin sem til þarf. „Það er stærðargráðan ef það er verið að tala um að stofna nýtt REI til að fara í útrás."
Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Guðmundur standi frammi fyrir vali á milli tveggja fjármögnunarkosta. Annars vegar samstarfi við bandaríska fjárfestingarisann Riverstone, sem fjárfest hefur fyrir yfir fimmtán milljarða Bandaríkjadala í orkufyrirtækjum, og hins vegar innlendan banka. Hann átti hins vegar nýlega fund í Bandaríkjunum með fulltrúum Riverstone og munu þær viðræður vera langt komnar.