Aðdáandi númer 1 missir ekki af neinu

Ákafari stuðningsmann íslenska landsliðsins í handbolta en Herdísi er erfitt …
Ákafari stuðningsmann íslenska landsliðsins í handbolta en Herdísi er erfitt að finna. mynd/bb.is


Það var þéttsetið í setustofu öldrunardeildar sjúkrahússins á Ísafirði þegar leikur Íslands og Spánar í undanúrslitum Ólympíuleikana var að hefjast í dag. Heldri borgarar Ísafjarðar styðja strákana í Peking ekki síður en aðrir en þar var þó fremst í flokki hin tæplega aldargamla Herdís Albertsdóttir, en ákafari stuðningsmann íslenska landsliðsins í handbolta er varla hægt að finna.

Hún situr sem límd við skjáinn og lætur það ekki á sig fá að sjónin og heyrnin eru ekki eins og þau voru. Aðspurð segist hún hafa mikinn áhuga á handbolta.

„Það byrjaði nú svoleiðis að fyrir mörgum árum voru þrír leikmenn liðsins ættaðir úr Djúpinu, þannig að ég sagðist alltaf eiga þrjá. Ég sagði þetta einu sinni við Þorbjörn Jensson, þáverandi landsliðsþjálfara, sem sagðist ekki vita til þess. Jú, sagði ég, þarna eru til dæmis Kristján Lárusson, ættaðan úr Ögri, og Guðmund Guðmundsson sem einnig var úr Djúpinu“, segir Herdís.

Herdís hefur fulla trú á sínum mönnum. „Ég vona að þeir taki Spánverjana. Fyrst þeir sigruðu Þjóðverjana eru þeir til alls líklegir, þeir geta þetta alveg. Ég veit ekki hvort liðið núna eða liðið frá 1992 sé betra, þessir eru auðvitað svo ungir. Þarna eru samt tveir sem maður kannast vel við, þeir Ólafur (Stefánsson) og Fúsi (Sigfús Sigurðsson)“, segi Herdís og hlær, „Hann Fúsi... hann er alveg ótrúlegur“.

Herdís lét sig ekki vanta á landsleik Íslands og Japans sem fór fram í Íþróttahúsinu á Torfnesi um miðjan síðasta áratug. Þar hitti hún nokkra af leikmönnum Íslands.

„Þetta voru almennilegustu piltar. Það var nú sagt um landsliðið í handbolta árið 1986 að þetta væru prúðustu menn sem væru að spila handbolta, Íslendingar. Það las ég í blaði sem ég fékk frá Þýskalandi“, segir Herdís.

Bæjarins besta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert