Ágústa Þorsteinsdóttir sundkona látin

Ágústa Þorsteinsdóttir
Ágústa Þorsteinsdóttir


Ágústa Þorsteinsdóttir sundkona er látin. Ágústa fæddist í Reykjavík 1942. Hún hóf að æfa sund 1955, 14 ára gömul. Ári síðar setti hún 11 Íslandsmet og vann með því gullmerki ÍSÍ. Ágústa keppti fyrir Íslands hönd í 100 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 1960. Hún setti alls 52 Íslandsmet í sundi á ferli sínum og var fjórum sinnum tilnefnd til kjörs íþróttamanns ársins.

Ágústa var ein af fremstu sundkonum Norðurlanda í sinni grein.
Ágústa var fyrsti handhafi Pálsbikarsins sem gefinn var af Ásgeiri Ásgeirssyni, þáverandi forseta Íslands árið 1958. Auk þess að keppa í sundi lék hún á yngri árum handbolta með KR.

Árið 1988, eftir tveggja áratuga hlé frá íþróttum, hóf Ágústa að leika keilu og keppti með Afturgöngunum. Með þeim varð hún Íslandsmeistari 11 sinnum. Hún lék allt til loka síðustu leiktíðar, vorið 2008.

Hún varð einnig þrisvar sinnum Íslandsmeistari einstaklinga kvenna, árin 1992, 1995 og 1996 og setti nokkur Íslandsmet. Hún lék í mörg ár fyrir Íslands hönd með landsliðinu í keilu og var sæmd heiðursmerki KLÍ á 10 ára afmæli félagsins.

Ágústa lést á gjörgæsludeild Landspítala Íslands 21. ágúst sl.
Hún lætur eftir sig eiginmann, Guðjón Þór Ólafsson og tvö uppkomin börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert