Lögmaður Ramsesar þakkar ráðherra

Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Keníamannsins Paul Ramses.
Katrín Theodórsdóttir, lögmaður Keníamannsins Paul Ramses. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

 

Katrín Theódórsdóttir lögmaður Ramsesar, segir að það sé full ástæða til þess að þakka dómsmálaráðherra og öðrum íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa tekið jákvæða ákvörðun í máli flóttamannsins Ramsesar. Segir í tilkynningu frá henni að megin niðurstaða dómsmálaráðherra sé í samræmi við óskir hennar sem lögmanns Ramsesar þannig að beiðni hans um hæli verður tekin fyrir að nýju.

„Það er full ástæða til að þakka dómsmálaráðherra og öðrum íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa tekið jákvæða ákvörðun í máli flóttamannsins Ramsesar. Megin niðurstaða dómsmálaráðherra er í samræmi við óskir mínar sem lögmanns Ramsesar þannig að beiðni hans um hæli verður tekin fyrir að nýju. Þótt deila megi um lagatæknilegar útlistanir ráðuneytisins hlýtur megin niðurstaðan að skipta mestu máli; hér hafa sjónarmið mannúðar og réttlætis fengið að njóta sín, þannig að hægt er að líta á niðurstöðu málsins sem mikilvægan ávinning í mannréttindabaráttu á Íslandi.

Með væntanlegri endurupptöku málsins má ætla að öryggi einstaklings sem sá fram á örvæntingu og ofsóknir í fjarlægu landi verði tryggt um leið og ung fjölskylda verður sameinuð á ný; eiginkona Ramsesar og ungt barn þeirra hjóna sem fæddist hér á landi hafa beðið föðurins um nokkurra vikna skeið. Um leið og þessu jákvæða skrefi er fagnað er full ástæða til að óska eftir því að framhald málsins verði af opinberu hálfu sömuleiðis í farvegi mannúðarsjónarmiða og félagslegs réttlætis.  

Að lokum vil ég þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa þessu nauðsynjarmáli lið."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka