Óður maður réðist á lögreglu

Ráðist var á lögreglumann aðfaranótt sunnudags eftir að kallað var eftir aðstoð vegna óláta á heimili í Hólmavík. Þegar lögregla kom á vettvang kom í ljós að húsráðandi var mjög æstur og braut rúður í húsi sínu, heimilisfólki og gestum til hrellingar.

Að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum réðist húsráðandi fyrirvaralaust á lögreglumann sem kom á vettvang og náði að koma á hann höggi. Maðurinn hljóp því næst að lögreglubifreið og braut í henni rúðu með hnefahöggi. Maðurinn hljóp síðan niður að hafnarsvæði Hólmavíkur og stökk í sjóinn.

Lögregla og sjúkraflutningamenn náðu manninum á þurrt land eftir að hann hafði svamlað um 15 mínútur í sjónum. Þar veitti hann harða mótspyrnu en að lokum var hann fluttur í fangaklefa. 

Maðurinn á von á ákæru fyrir brot gegn valdstjórninni. Hann hefur áður komið við sögu hjá lögreglunni vegna svipaðra mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert