Lygileg veiði

Glímt við einn laxinn fyrir ofan Rangárflúðir í Ytri-Rangá
Glímt við einn laxinn fyrir ofan Rangárflúðir í Ytri-Rangá mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Laxveiðin í Rangánum hefur verið lygileg í sumar. Seiðasleppingar hafa greinilega heppnast vel í fyrra og vaxtarskilyrði laxins í sjónum hljóta að vera góð. Nú þegar hafa árnar sprengt alla skala og sú ytri nálgast óðfluga 10 þúsundasta laxinn.

Um síðustu helgi var þar opnað fyrir maðkaveiði, en laxinum hefur eingöngu verið boðin fluga það sem af er sumri. Það er ekki að sökum að spyrja að á þremur dögum lönduðu veiðimenn á 18 stangir nálægt 1100 löxum! Ef við setjum upp frekar ósanngjarna viðmiðun, þá er þetta svipuð veiði og kemur að meðaltali, á heilu sumri, úr ám eins og Miðfjarðará, Laxá í Dölum, Blöndu og Laxá í Aðaldal. Þriggja daga veiði í Ytri-Rangá hefur sem sagt náð sumarveiði náttúrulegrar laxveiðiár.

Kaldur Hróarslækur

Ein af þverám Ytri-Rangár er Hróarslækur. Þar hefur á seinni árum verið sleppt seiðum líkt og gert er í Rangánum. Veiðimenn sem voru við veiðar um síðustu helgi sögðust ekki hafa séð mikið af laxi. Þeir gengu þó nokkuð meðfram ánni í leit að fiski en sáu hvergi eða urðu varir við líf. Eini staðurinn sem geymdi lax voru ármótin við Rangá. „Lækurinn er ískaldur. Ég mældi hann fjórar gráður meðan Rangáin var sex gráður á straumskilunum. Það síðasta sem laxinn vill er að fara úr sex gráðum í fjórar,“ sagði einn veiðimannanna. Hann sagði að samkvæmt veiðibók væru komnir um 200 laxar á land, þar af nálægt 90 prósent upp úr ármótunum. „Það geta tveir veitt í ármótunum á sama tíma en staðurinn ber ekki meira en það.“ Hópurinn náði fjórtán löxum á tveimur dögum, en veitt er á fjórar stangir í Hróarslæk. Veiðimaðurinn sagði alla veiðina hafa komið úr ármótunum og mest hafa komið á spún.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert