„Dómarinn segir aldrei nákvæmlega hvenær þetta verður. En það getur verið hvenær sem er frá því í dag og svo fjórar vikur fram í tímann. Dómarinn sagði þó að hann ætlaði að reyna að vera fljótur að þessu,“ segir Svavar Lúthersson, aðstandandi hinnar umdeildu Istorrent-deilisíðu, spurður um lögfræðilega stöðu sinna mála. Mál hans var tekið fyrir í fyrradag en dómari metur nú hvort vísa skuli málinu frá.
Málaferli rétthafa á hendur Svavari hafa nú staðið yfir í um tíu mánuði en þetta er í annað sinn sem málið er tekið fyrir. „Það má segja að þetta sé fyrsta skrefið í annarri umferð,“ segir Svavar sem játar að málareksturinn hafi lagt þungar byrðar á fjárhag hans.
„Fjárhagslega staðan er ekki sterk en ég reyni samt að lifa það af. Ég er vanur því að lifa ódýrt þannig að þetta er engin píningarstaða. Ég þrauka.“
Svavari barst óvæntur stuðningur þegar mál hans var tekið fyrir í héraðsdómi en Peter Sunde, einn forsprakki hinnar sænsku deilisíðu Piratebay, var í salnum, bæði til að sýna Svavari stuðning og til að kynna sér íslenskt réttarkerfi. „Hann er í nokkuð svipaðri stöðu í Svíþjóð, þótt það sé náttúrlega lagalegur munur milli landanna.“