Allt í rembihnút

Fundur til stuðnings ljósmæðrum var haldinn á Austurvelli í gær.
Fundur til stuðnings ljósmæðrum var haldinn á Austurvelli í gær. mbl.is/G. Rúnar

Samninganefnd ríkisins hefur ekki viðurkennt að það eigi fyrst og fremst eða eingöngu að miða við menntun þegar kemur að röðun stétta í launaflokka. Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, segir að það eigi miklu frekar að taka mið af „eðli starfa“. Ólík nálgun við þessa hluti virðist eiga stóran þátt í því að kjaradeila ljósmæðra er í hnút og engin lausn í sjónmáli þrátt fyrir verkfall.

Ljósmæður eru ekki fyrsta stéttin sem fer í verkfall til að „leiðrétta skekkju í launatöflunni“. Grunnskólakennarar hafa lengi haldið því fram að kennslustarfið sé ekki rétt metið í samanburði við aðrar stéttir. Þroskaþjálfar áttu fyrir fáum árum í harðri kjaradeilu sem háð var undir þeim merkjum að ekki væri tekið tillit til menntunar þroskaþjálfa. Leikskólakennarar hafa háð svipaða baráttu og hægt er að nefna fleiri.

Gunnar segir að ríkið hafi aldrei lagt eingöngu menntun til grundvallar við mat á störfum. Miklu frekar sé horft til eðli starfa. Hann bendir á að fyrir 10 árum hafi þessi mál verið rædd við ljósmæður og þá hafi þær lagt áherslu á að ljósmæðrum yrði ekki mismunað í launum eftir því hvað þær hefðu mikla menntun að baki, en elstu ljósmæðurnar hafa ekki verið í 6 ára háskólanámi eins og þær yngri.

Þarf enga aðlögun til að leiðrétta skekkju

Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélagsins, segist geta tekið undir það að þessi launaleiðrétting sé langtímaverkefni. Þessi krafa ljósmæðra sé búin að vera uppi á borðinu í mörgum samningum síðastliðin ár. Nú sé komið að því að gera eitthvað. Hún segist ekki geta skilið hvers vegna það þurfi að vera einhver aðlögun að því að leiðrétta skekkju í launakerfinu. Ef menn viðurkenni að það sé vitlaust gefið eigi menn að laga það og það strax. Aðspurð segir hún að það sé hennar skilningur að samninganefnd ríkisins virðurkenni að það sé skekkja í launakerfinu og það halli á ljósmæður. Samt hafi ekki náðst samkomulag um að laga þetta.

Kröfur ljósmæðra eru um 25% hækkun launa, en að öðru leyti hafa þær lýst sig tilbúnar að gera sams konar samninga og önnur félög innan BHM. BHM gerði fyrr á árinu skammtímasamning sem rennur út á næsta ári. Bæði Guðlaug og Gunnar segja að lítil umræða hafi átt sér stað um samning til lengri tíma. Staðan sé erfið og lítið hafi miðað í samningsátt á síðustu fundum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert