Óttast ófremdarástand

00:00
00:00

„Það leggj­ast all­ir á eitt að bjarga mál­um og það hef­ur gengið vel, en það er al­veg ljóst að svona geng­ur ekki til lengd­ar. Og það stefn­ir í ófremd­ar­ástand hérna þegar alls­herj­ar­verk­fallið kem­ur og síðan upp­sagn­ir um mánaðar­mót­in,“ seg­ir Hild­ur Harðardótt­ir, sviðsstjóri lækn­inga á kvenna­sviði Land­spít­al­ans.

Hún seg­ir að mikið álag sé á starfs­fólki kvenna­deild­ar­inn­ar, en að allt hafi gengið vel fyr­ir sig það sem af er degi. Um klukk­an tvö höfðu 12 börn komið í heim­inn frá miðnætti, þegar verk­fall ljós­mæðra hófst á ný eft­ir ár­ang­urs­laus­an sátta­fund í karp­hús­inu í gær.

Fæðing­ar- og sæng­ur­kvenna­gang­ar eru nú full­ir og þar starfa nú ljós­mæður á und­anþágu. Eng­in und­anþága er hins veg­ar í gildi á Hreiðrinu og meðgöngu­deild svo dæmi séu tek­in.

Mæðravernd­in grunn­ur­inn að lág­um burðar­máls­dauða

Hún seg­ir fjöl­marg­ar spurn­ing­ar vakna hjá verðandi for­eldr­um varðandi verk­fallið og áhrif þess. Fólk þyki óviss­an óþægi­leg. Hild­ur bend­ir hins veg­ar á að fæðing­arþjón­ust­an sé best tryggð um þess­ar mund­ir, því þar séu und­anþágur. „En á móti þá er það mæðravernd­in og svo þessi starfs­semi hér í són­arn­um sem líður út af því að hér hafa ekki verið nein­ar und­anþágur. Og eins það að þessi grunn­ur að þess­um lága burðar­máls­dauða, sem við erum nú að flagga hérna á tylli­dög­um, er lagður í mæðravernd­inni. Ef að mæðravernd­in dett­ur út þá hætt­um við að pikka upp al­var­legu vanda­mál­in, og þá geta orðið slys.“ 

Nýr fund­ur í kjara­deilu Ljós­mæðrafé­lags Íslands og samn­inga­nefnd­ar rík­is­ins er boðaður kl. þrjú á föstu­dag.


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert