Óttast ófremdarástand

„Það leggjast allir á eitt að bjarga málum og það hefur gengið vel, en það er alveg ljóst að svona gengur ekki til lengdar. Og það stefnir í ófremdarástand hérna þegar allsherjarverkfallið kemur og síðan uppsagnir um mánaðarmótin,“ segir Hildur Harðardóttir, sviðsstjóri lækninga á kvennasviði Landspítalans.

Hún segir að mikið álag sé á starfsfólki kvennadeildarinnar, en að allt hafi gengið vel fyrir sig það sem af er degi. Um klukkan tvö höfðu 12 börn komið í heiminn frá miðnætti, þegar verkfall ljósmæðra hófst á ný eftir árangurslausan sáttafund í karphúsinu í gær.

Fæðingar- og sængurkvennagangar eru nú fullir og þar starfa nú ljósmæður á undanþágu. Engin undanþága er hins vegar í gildi á Hreiðrinu og meðgöngudeild svo dæmi séu tekin.

Mæðraverndin grunnurinn að lágum burðarmálsdauða

Hún segir fjölmargar spurningar vakna hjá verðandi foreldrum varðandi verkfallið og áhrif þess. Fólk þyki óvissan óþægileg. Hildur bendir hins vegar á að fæðingarþjónustan sé best tryggð um þessar mundir, því þar séu undanþágur. „En á móti þá er það mæðraverndin og svo þessi starfssemi hér í sónarnum sem líður út af því að hér hafa ekki verið neinar undanþágur. Og eins það að þessi grunnur að þessum lága burðarmálsdauða, sem við erum nú að flagga hérna á tyllidögum, er lagður í mæðraverndinni. Ef að mæðraverndin dettur út þá hættum við að pikka upp alvarlegu vandamálin, og þá geta orðið slys.“ 

Nýr fundur í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og samninganefndar ríkisins er boðaður kl. þrjú á föstudag.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka