Gæti orðið erfitt fyrir ljósmæður að vinna málið

Ljósmæður fyrir utan Alþingishúsið nýlega.
Ljósmæður fyrir utan Alþingishúsið nýlega. mbl.is/Golli

Það gæti orðið erfitt fyrir ljósmæður að vinna mál sem fjármálaráðherra ætlar að höfða fyrir félagsdómi, en krafa hans er að uppsagnir ljósmæðra verði dæmdar ólöglegar. Ástæðan fyrir þessu er að árið 2000 breytti Alþingi lögum um kjarasamning opinberra starfsmanna. Þetta var gert í kjölfar þess að leikskólakennarar í Árborg unnu mál fyrir félagsdómi, en í málinu var tekist á um lögmæti uppsagna.

Ljósmæður tóku ákvörðun um að segja upp störfum í sumar. Sumar uppsagnir eiga að taka gildi um næstu mánaðamót en aðrar síðar. Enginn vafi leikur á að uppsagnirnar eiga rót sína í óánægju með launakjör.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem óánægja með kjör leiðir til fjöldauppsagna. Árið 1999 sögðu leikskólakennarar í Árborg upp störfum. Launanefnd sveitarfélaganna ákvað í kjölfarið að leita álits félagsdóms á uppsögnunum. Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að uppsagnir einstakra félagsmanna í Félagi leikskólakennara væru ekki brot á friðarskyldu. Jafnframt hafnaði dómurinn því að stéttarfélagið hefði eitthvað komið nærri uppsögnunum.

Í kjölfarið lagði Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um kjarasamning opinberra starfsmanna. Ráðherra taldi nauðsynlegt að skýra leikreglurnar. Frumvarpið er aðeins ein grein en í því segir: „Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.“

Þessi seinni setning þrengir möguleika stétta til að knýja á um bætt launakjör með uppsögnum. Það getur hins vegar skipt máli hvernig að uppsögnunum var staðið af hálfu ljósmæðra, t.d. á hve löngum tíma þær berast. Ef lögmanni fjármálaráðherra tekst að sanna að um samantekin ráð hafi verið að ræða eða að Ljósmæðrafélagið hafi komið að málum með beinum hætti mun það án efa veikja málstað ljósmæðra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert