Miðlunartillaga í ljósmæðradeilu

Frá fundi ljósmæðra í síðustu viku.
Frá fundi ljósmæðra í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkissáttasemjari hefur í dag, 16. september 2008, lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands annars vegar og
fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hins vegar. Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem hlut eiga að máli fyrr en atkvæði hafa verið greidd um hana.

Samkomulag er um að Ljósmæðrafélag Íslands sjái um atkvæðagreiðslu félagsmanna sinna undir eftirliti ríkissáttasemjara. Verður miðlunartillagan kynnt á félagsfundi í Reykjavík í kvöld og á Akureyri fyrir hádegi á morgun. Miðlunartillagan verður ekki birt öðrum en þeim sem eiga hlut að máli fyrr en niðurstaða liggur fyrir úr atkvæðagreiðslu.

Samhliða framlagningu þessarar miðlunartillögu hefur Ljósmæðrafélag Íslands samþykkt að aflýsa því verkfalli sem koma átti til framkvæmda á miðnætti í kvöld. Jafnframt eru aðilar sammála um að fresta meðferð Félagsdómsmáls um lögmæti uppsagna ljósmæðra og að málið falli niður verði miðlunartillagan samþykkt enda hvetji Ljósmæðrafélag Íslands félagsmenn sína til að afturkalla uppsagnirnar.

Miðlunartillagan verður send til félagsmanna á rafrænu formi og atkvæði verða greidd rafrænt.  Atkvæðagreiðslan hefst kl. 12 á morgun og lýkur kl. 12 á föstudaginn. Stefnt er að því að niðurstaða talningar liggi fyrir kl. 14 þann dag.

Fjármálaráðherra skal skila atkvæði sínu til ríkissáttasemjara fyrir kl. 12 föstudaginn 19. september 2008.

 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka