Krossá þrefaldaðist á hálfum sólarhring

Frá Þórsmörk
Frá Þórsmörk mbl.is/Brynjar Gauti

„Staðkunnugir segjast ekki hafa séð annað eins,“ segir Berglind Guttormsdóttir, skálavörður Ferðafélags Íslands í Langadal í Þórsmörk, en Krossá þrefaldaðist á aðeins hálfum sólarhring, frá því síðdegis í gær þar til snemma í morgun, með þeim afleiðingum að ófært er inn í Þórsmörk. 

Að sögn Berglindar var vitlaust veður í nótt í Þórsmörk, en veðrinu slotaði í morgunsárið. Segist hún aldrei hafa séð Krossá svo umfangsmikla, en áin náði allt upp að bílaplani. Aðspurð segist Berglind ekki vita til þess að áin hafi valdið neinum skemmdum og enginn hafi skaðast. Ferðafélagið hefur beint þeim tilmælum til ferðalanga að þeir sýni aðgát og varfærni í ferðum sínum um svæðið og leggi alls ekki í árnar í þeim vexti sem þær eru nú.

Spurð  um skólahópinn sem dvelur í Langadal segir Berglind um að ræða 30 grunnskólakrakka á aldrinum 14-15 ára. „Hópurinn kom í fyrradag og hugðist halda heim í dag, en af því verður ekki fyrr en í fyrsta lagi á morgun,“ segir Berglind. Hún segir stemninguna í skálanum góða og ljóst að krökkunum leiðist það ekki að fá að dvelja aukanótt í Þórsmörk. „Þau röltu yfir í Húsadal í góðu veðri í dag og fóru þar í náttúrulegu laugina sem þar er.“

Að sögn Berglindar munu starfsmenn Vegagerðarinnar skoða umsvif Merkuránna á morgun og reyna að lagfæra vegarstæði milli ánna og í ánum sjálfum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert