Ljósmæður fá allt að 21% hækkun

Ljósmæður á félagsfundi í gærkvöldi þar sem miðlunartillagan var kynnt.
Ljósmæður á félagsfundi í gærkvöldi þar sem miðlunartillagan var kynnt. mbl.is/Frikki

Ljósmæður fá allt að 21% launahækkun, samkvæmt miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í launadeilu ljósmæðra og ríkisins í gær Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Rafræn atkvæðagreiðsla hefst meðal ljósmæðra um tillöguna í dag en forustumenn Ljósmæðrafélags Íslands hafa mælt með því að tillagan verði samþykkt.

Blaðið segir að launakostnaður ríkisins vegna ljósmæðra hækki um 21%. Mismunandi sé hve ljósmæður hækki í launum en ákveðnir hópar fái allt að 21%. Þá geri tillagan ráð fyrir því að ríkið kaupi Vísindasjóð af ljósmæðrafélaginu.

Samninganefnd  ljósmæðra kynnti miðlunartillögu ríkissáttasemjara á fjölmennum fundi í Rúgbrauðsgerðinni í gærkvöldi og talaði fyrir henni, en Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, segir ómögulegt að segja til um hvernig atkvæðagreiðslan um hana fari. „Það verður að koma í ljós hvort þær eru sammála okkar mati eða ekki,“ segir hún. 

Félagsmenn í Ljósmæðrafélagi Íslands (LMFÍ) munu frá og með hádegi í dag geta kosið um tillöguna með rafrænum hætti en kosningu lýkur kl. 12 á föstudag, á sama tíma og fjármálaráðherra á að skila sínu atkvæði til ríkissáttasemjara. Niðurstöður úr kosningu ljósmæðra munu liggja fyrir kl. 14 samdægurs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka