Miðlunartillagan samþykkt

Slegið var í vöfflur eftir að ljóst varð að miðlunartillagan …
Slegið var í vöfflur eftir að ljóst varð að miðlunartillagan hafði verið samþykkt. mbl.is/Kristinn

Bæði ljósmæður og fjármálaráðherra samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara, sem lögð var fram á mánudag, og er því kominn á kjarasamningur milli þessara aðila.

Samkvæmt miðlunartillögunni er núgildandi kjarsamningur Ljósmæðrafélagsins framlengdur frá 1. ágúst  til 31. mars 2009. Grunnlaun ljósmæðra hækka um allt að 22,6% á mánuði, þar af koma um 5% í stofnanasamningum, og að jafnaði hækka mánaðarlaun þeirra um 70-90 þúsund krónur á mánuði, að sögn ljósmæðra. Á móti kemur, að svonefndur Vísindasjóður ljósmæðra verður lagður af en í hann hafa vinnuveitendur greitt 1,5% af launum.   

Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, sagði að ljósmæður væru sáttar við þessa niðurstöðu. Þetta hefði verið löng og ströng samningalota og ljóst, að enn vanti um 10% upp á að ljósmæður hefðu náð því fram sem þær stefndu að. Ljóst sé, að þeirri baráttu verði haldið áfram í mars þegar þessi samningur rennur út. 

Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, vildi ekki tjá sig um niðurtöðuna þegar fréttamenn í húsakynnum ríksissáttasemjara leituðu eftir því. 

Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari, sagðist hafa verið bjartsýnn á að miðlunartillagan yrði samþykkt.

Ásmundur Stefánsson, ríksisáttasemjari, tilkynnir úrslitin nú.
Ásmundur Stefánsson, ríksisáttasemjari, tilkynnir úrslitin nú. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert