Skólabörnin komin til byggða

Úr Þórsmörk.
Úr Þórsmörk. mbl.is/RAX

Vel gekk að koma hópi grunnskólabarna til byggða úr Langadal í Þórsmörk í gær.  Um þrjátíu nemendur úr 10. bekk Húsaskóla í Reykjavík höfðu orðið innlyksa í Þórsmörk í kjölfar óvenju mikilla vatnavaxta í Merkuránum. Til stóð að hópurinn færi heim sl . miðvikudag en fresta varð heimförinni um sólarhring vegna ófærðar.

Að sögn Daníels Guðmundssonar, skálavarðar í Langadal í Þórsmörk, kom grafa frá Vegagerðinni sem keyrði á undan rútu nemendanna. Segir hann rútuna hafa lagt í hann um fimm leytið síðdegis í gær og verið kominn yfir allar árnar, þ.e. Krossá, Steinholtsá, Hvanná, laust fyrir klukkan hálf sjö í gærkvöldi. Aðspurður segir hann rútuna sennilega hafa verið um hálftíma lengur yfir árnar en á meðaldegi. 

Samkvæmt upplýsingum frá Bjarna Jóni Finnssyni, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni, verður að öllum líkindum reynt að fara í umfangsmeiri viðgerðir á vegarstæðinu inn í Þórsmörk fljótlega eftir helgi, en árnar flæddu upp úr farvegi sínum, rufu varnargarð og runnu meðfram veginum. Spáð er mikilli úrkomu á svæðinu á morgun. 

Að sögn Daníels var von á um fimmtíu manna ferðahóp að norðan í Þórsmörk, en hópurinn frestaði komu sinni vegna ófærðarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert