Hugmyndir eru uppi um að flytja fimleikadeild og karatedeild Fylkis í Árbæ í fyrrverandi húsnæði Mest á Norðlingabraut 12. Kjartan Magnússon, formaður stjórnar íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, segir ýmsa kosti til skoðunar og þetta sé einn þeirra.
„Þetta er góð hugmynd og við skoðum hana betur en það hefur ekkert verið ákveðið.“ Hann bendir jafnframt á að skoðuð hafi verið önnur hús undir starfsemina og ekki sé búið að útiloka að reisa fimleikahús.
Guðrún Ósk Jakobsdóttir, formaður fimleikadeildar Fylkis, segir núverandi aðstöðu skelfilega. „Við erum að slást við handboltann um sal og erum oft aðeins með hálfan sal. Til að mynda erum við með um 120 börn í hálfum sal á þriðjudögum og fimmtudögum.“ Félagið getur því ekki tekið við fleiri börnum, ekki frekar en önnur fimleikafélög á höfuðborgarsvæðinu.