Sonja Rosengren, hálfíslenskur menntaskólanemandi í Helsinki, segir að viðbrögð nemenda í skólanum við skotárásinni í Kauhajoki í Austurbotni í Finnlandi hafi ekki einkennst af eins mikilli hræðslu og eftir skotárásina í Tuusula í fyrra. „Þá varð fólk ótrúlega hrætt en nú voru nemendur frekar hissa,“ segir hún.
Í árásinni í Tuusula létust átta nemendur. Staðfest er að 9 létu lífið í árásinni í Kauhajoki í morgun. Árásarmaðurinn reyndi að svipta sig lífi en tókst ekki.
Sonja nemur við skólann Koillis-Helsingin Lukio. Aðspurð segir hún að árásin í fyrra hafi verið mikið rædd í kennslustundum en hún hafi ekki leitt til breytinga á umgjörð skólastarfsins.