Fimm menn hafa verið handteknir í tengslum við morðið á íslenskri konu, Hrafnhildi Lilju Georgsdóttur, í bænum Cabarete á Dóminíska lýðveldinu. Yfirmaður lögreglunnar í umdæminu, Rafael Arturo Calderón Efres sagði í samtali við dagblaðið Listin Diario að tveir hinna handteknu hefðu átt í tilfinningalegu sambandi við Hrafnhildi.
Samkvæmt Calderón Efres telur lögreglan að Hrafnhildi Lilju hafi verið banað í baðherbergi hótelherbergis númer 2 á Extreme gistiheimilinu sem hún stýrði. Þar mun morðinginn eða morðingjarnir hafa misþyrmt henni hrottalega.
Höfuðhögg
Lögregluforinginn segir að stungusár á líkama Hrafnhildar Lilju hafi flest verið grunn og að það hafi verið höfuðhögg sem að öllum líkindum varð henni að aldurtila.
Lögreglan hefur staðfest að í svefnherberginu hafi fundist notaður smokkur og hefur hann verið sendur á tilraunastofu í Santo Domingo til að skera úr um hvort einhver hinna grunuðu hafi notað hann.
Að lokum hefur dagblaðið eftir lögregluforingjanum að rannsókninni miði vel og að hún sé langt fram skriðin.
Samkvæmt heimildum mbl.is hefur þremur hinna grunuðu verið sleppt úr haldi en tveir sæta enn yfirheyrslum.