Sérfræðingar meta tjón íslenska ríkisins

Reuters

Fjármálaráðuneytið fyrir hönd íslenska ríkisins hefur ákveðið að dómkvaddir sérfræðingar skuli fengnir til þess að meta tjón íslenska ríkisins vegna samráðs Skeljungs, Olís og Kers, áður Olíufélagsins hf., fyrir útboð Landhelgisgæslunnar, Vegagerðarinnar og lögreglunnar árin 1995 og 1996.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda Landslaga, fer með málið fyrir hönd ríkisins.

Ákveðið var að kalla til matsmenn fyrr í vikunni eftir fund Vilhjálms með fulltrúum fjármálaráðuneytisins um gang málsins.

Háar upphæðir

Stærsti einstaki viðskiptavinur olíufélaganna á vegum ríkisins var Landhelgisgæslan. Heildarviðskipti hennar vegna olíukaupa námu um 417 milljónum króna frá 1996 til loka árs 2001 hið minnsta, sé mið tekið af verðlagi ársins 2005.

Heildarviðskipti lögreglunnar á fyrrnefndu tímabili námu 310 milljónum króna og Vegagerðarinnar tæplega 178 milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert