Lögreglustjórafélag Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem lýst er yfir eindregnum og óskoruðum stuðningi við dómsmálaráðherra og starfsmenn dómsmálaráðuneytisins. Þar segir jafnframt að félagið harmi þær illskeyttu og persónulegu árásir sem m.a. ráðherra hafi þurft að sæta.
Ályktunin er eftirfarandi:
„Lögreglustjórafélag Íslands lýsir yfir eindregnum og óskoruðum stuðningi við dómsmálaráðherra og starfsmenn dómsmálaráðuneytis. Björn Bjarnason hefur eflt og styrkt lögregluna og réttarvörslukerfið í embættistíð sinni og átt gott og náið samstarf við lögreglustjóra landsins. Sama gildir um starfsmenn ráðuneytisins, sem hafa af ósérhlífni lagt sig fram um að aðstoða stofnanirnar í smáu sem stóru. Á sama hátt hefur embætti ríkislögreglustjóra verið boðið og búið þegar einstök lögreglustjóraembætti hafa þurft á aðstoð að halda í hvaða formi sem er.
Lögreglustjórafélagið harmar því þær illskeyttu og persónulegu árásir sem ráðherra og einstakir starfsmenn lögreglukerfisins hafa þurft að sæta og kallar þess í stað á málefnalegar umræður um starfsemi lögreglunnar og skipulag hennar.
Fyrir hönd stjórnar Lögreglustjórafélags Íslands
Ólafur Helgi Kjartansson, ritari.“