Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttalögmaður, fái ekki að verja Jón Ólafsson. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að í ljósi rannsóknar lögreglu sé ekki hægt að útiloka að Sigurður yrði á síðari stigum kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu.
Jón Ólafsson er ákærður fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með meiriháttar brotum á skatta-, bókhalds- og ársreikningalögum. Þann 16. september hafnaði héraðsdómur kröfu um að Sigurði yrði heimilað að verja Jón Ólafsson. Var það í annað skipti sem þeirri kröfu var hafnað.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Jóns, kærði niðurstöðuna til Hæstaréttar líkt og hann gerði í fyrra skiptið þegar héraðsdómur úrskurðaði um kröfuna. Þá ómerkti Hæstiréttur úrskurðinn og vísaði málinu á ný heim í hérað þar sem talið var að Ragnar hefði ekki fengið tækifæri til að rökstyðja kröfu Jóns fyrir héraðsdómi.