Sjaldan staðið frammi fyrir jafn miklum erfiðleikum

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, að efnahagsástand hefði á afar skömmum tíma breyst til hins verra og fullyrða mætti að íslensk stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu hafi sjaldan staðið fyrir jafn miklum erfiðleikum og nú.

Geir sagði, að eftir blómlega uppgangstíma væri skollið á gjörningaveður í efnahagskerfi heimsins og brimsjórinn af því mikla umróti skelli nú á Íslandsströndum af miklu afli.

„Allir vissu að góðærið myndi ekki vara endalaust en enginn sá fyrir þann storm sem skall á sl. vetur og fer nú um efnahagskerfi heimsins með mikilli eyðileggingu. Við horfum fram á að íslensku bankarnir, flaggskip útrásar síðustu ára, búa sig nú undir mikla varnarbaráttu. Þurrausnar lánalindir gera íslenskum fyrirtækjum afar erfitt fyrir og þau sem færst hafa of mikið í fang berjast nú í bökkum. Íslensk fyrirtæki hafa á undanförnum árum teflt djarft í sókn sinni og uppskeran hefur í mörgum tilvikum verið ríkuleg. Hagnaður íslenskra fyrirtækja hefur verið ævintýri líkastur og hafa hluthafar notið góðs af. Þegar uppstreymið hættir er fall þeirra sem hæst fljúga mest.

Það sem mest svíður er þó hin óhjákvæmilega lífskjaraskerðing sem almenningur í landinu stendur frammi fyrir. Á undanförnum árum höfum við Íslendingar notið þess að búa við bestu lífskjör sem fyrirfinnast í heiminum. Við gerum öll kröfu um það besta og þannig á það að vera. En íslenska þjóðin er ekki samansafn af óhófslýð sem heldur að verðmæti og góð lífskjör falli af himnum ofan. Íslenska þjóðin veit að leiðin til velmegunar er vörðuð erfiðum hindrunum og íslenska þjóðin er það sem hún er í dag vegna þess að hún hefur tekist á við erfiða tíma og sigrast á þeim.

Á sama hátt og við brutumst út úr vesöld og fátækt fyrir áratugum síðan með bjartsýni og baráttuhug að vopni, þá munum við komast útúr þeim hremmingum sem yfir okkur ganga nú. Við Íslendingar gefumst ekki upp þótt á móti blási og við munum ekki örvænta eða leggja árar í bát í þeim stjórsjó sem þjóðarskút siglir nú í gegnum. Við erum öll á sama báti, stjórnvöld, fyrirtækin og fólkið í landinu," sagði Geir m.a.

Fram kom hjá Geir, að stefnuræðu hans hefði verið dreift til þingmanna með nokkrum fyrirvara en hann viki nokkuð frá þeim skrifaða texta sem dreift var til þingmanna vegna  þeirra sviptinga orðið hafa í efnahagslífi landsmanna á síðustu dögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert