Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, að nú á ögurstundu í sögu þjóðarinnar verði hún að grípa til gjaldeyrisskapandi auðlinda sinna og nýta þær með jafnræði og hagsæld að leiðarljósi.
„Þjóðin hefur ekki ástæðu til að gleðjast eins og málum er nú komið. Enda er henni ekki Þórðargleði eðlislæg. Við leikum ekki á hörpu meðan eignir venjulegs fólks brenna upp á báli verðbólgu og gengisfellingar. Ekki einu sinni þó því sé lýst af forsætisráðherra að við höfum ærna ástæðu til að gleðjast," sagði Guðjón.
Hann sagði að ríkisstjórnin hefði alls ekki stýrt af festu og öryggi á viðsjárverðum tímum eins og forsætisráðherra hefði sagt í kvöld. Nú bærust fréttir hvern dag um uppsagnir starfsmannahópa hjá mörgum fyrirtækjum. Spáð væri að gjaldþrotum fyrirtækja fjölgi mjög á þessu ári. Lánafyrirgreiðsla til fyrirtækja sé í algjöru frosti og stýrivextir sligi nú atvinnulífið.
„Forsætisráðherra sagði í ræðu sinni nú, að ríkisstjórnin vilji að jafnvægi myndist sem allra fyrst á ný í þjóðarbúinu, þannig að verðbólga og vextir lækki. Er ekki komið að því að ríkissjóður verður að taka stórt erlent lán og tryggja gjaldeyrisforðann ef von á að verða um styrkingu krónunnar og aukna trú á getu Seðlabankans sem lánveitanda til þrautavara?" sagði Guðjón og bætti við, að Frjálslyndi flokkurinn vildi vinna að afnámi verðtryggingar krónunnar og krefðist þess að atvinnufrelsi verði innleitt við fiskveiðar eins og ályktun mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna kveði á um.