Vaknið stjórnaraliðar, vaknið

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/Brynjar Gauti

Vaknið stjórnarliðar, vaknið," sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Sagði hann að  allir væru að tapa í aðgerðarleysi stjórnarinnar og staðan væri þyngri en tárum taki. „Það ríkir nefnilega hálfgert neyðarástand, því miður."

„Maturinn, bensínið, vextirnir, nauðþurftirnar upp úr öllu valdi. Kjarasamningar launafólksins að engu orðnir. Atvinnuleysi blasir nú við íslensku samfélagi, atvinnuleysi sem Framsóknarflokkurinn hafði útrýmt. Vaknið stjórnarliðar, vaknið, samviska ykkar má ekki sofa við þessar aðstæður þegar við öll verðum að spyrja okkur, hvað get ég gert til að bjarga efnahag fólksins í landinu," sagði Guðni.

Hann sagði að stækka yrði hlutverk Íbúðarlánasjóðs  til að bjarga mörgum frá miklum erfiðleikum. Þá yrði að skipa strax hóp sérfræðinga til að vinna með stjórnmálamönnunum til að greina flókna stöðu og hvaða ráð megi  best duga. Þá þyrfti að keyra stýrivexti úr 15% í 5% fyrir jól.

„Við verðum að vita hvaða áhrif ein tiltekin aðgerð hefur í för með sér fyrir heildarstöðuna og einstaka þætti, en það er ekki alltaf augljóst. Áleitin spurning hefur vaknað hvort inngrip ríkisvaldsins í fjármálakerfið um síðustu helgi sé þess valdandi að yfir Ísland sé skollin fjármálakreppa. Við verðum að kalla saman að einu borði - verkalýðshreyfingu, samtök atvinnurekanda, fjármálafyrirtækjanna, stjórnmálamanna og annarra aðila. Fyrsti fundur ætti að vera á morgun og síðan á hverjum degi," sagði Guðni.

Hann sagði að brýnt verkefni, sem þurfi að vinna, sé að endurskoða strax peningastefnuna um verðbólgumarkmiðin og flotgengið sem væri gjaldþrota í höndum ríkisstjórnar og Seðlabanka.  Þá þyrfti að hefja tafarlausar aðgerðir í samráði við erlenda seðlabanka og vinaþjóðir um að margfalda gjaldeyrisvarasjóðinn. Einnig þurfi að tryggja streymi erlends gjaldeyris inn í landið strax.

„Það vantar gjaldeyri. Í því liggur mesti áfellisdómur yfir störfum ríkisstjórnarinnar. Ef sá vandi verður ekki leystur brestur á kransæðstífla í atvinnulífinu. Það yrði alvarlegur jarðskjálfti í efnahagslífi Íslendinga. Við framsóknarmenn teljum að nú verði að spýta í lófana og róa lífróður, að allur heimur skilji að við ætlum að róa í takt, róa lífróður til að bjarga fólki og fyrirtækjum á Íslandi," sagði Guðni og bætti við, að hann væri sammála forsætisráðherra um það, að Ísland hafi góða möguleika til langframa til að vinna sig út úr vandanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert