Björgvin G. Sigurðsson segir að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar tryggi innflutning á vörum í þrjá mánuði og því sé langt í land að skortur á olíu eða vörum sé yfirvofandi. Ummæli um slíkt séu fráleit.
Björgvin segist skilja að fólk sé hrætt en unnið sé að því að efla gjaldeyrisvaraforðann og leysa vandann öllum stundum. Hann segir að um leið og eitthvað sé fast í hendi verði greint frá því. Fyrr sé það ekki hægt.
Björgvin G. Sigurðsson sagði að það væri langt frá því að það væri verið að ræða að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Rætt væri við alla banka vinaþjóða Íslendinga og allar hugsanlegar lausnir yfirvegaðar.
Þá fullyrti ráðherrann að ríkisstjórnarsamstarfið væri afar gott og ríkisstjórnin hefði aldrei staðið betur saman en núna.