Davíð: Rússar þurfa að fjárfesta með öruggum hætti

Davíð Oddsson Seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson Seðlabankastjóri. mbl.is/Ómar

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, Rússar væru með stóran gjaldeyrisvarasjóð sem þeir söfnuðu í hagnaði af olíuvinnslu líkt og Norðmenn. Þeir þyrftu að fjárfesta þetta fé með öruggum hætti og vonandi litu þeir á Ísland sem góðan fjárfesti.

„En þeir vita einnig að þetta er vinarbragð í erfiðleikum og menn taka eftir því hér á landi af því maður hefði getað haldið að einhverjir aðrir í okkar heimshluta myndu frekar sjá skyldur sínar eða vinsemd við okkur en þeir," sagði Davíð um 4 milljarða evra lán, sem samningaviðræður eru að hefjast við Rússa um að taka. 

Nokkuð misvísandi upplýsingar bárust frá Seðlabankanum í morgun um lánið. Af fyrstu tilkynningu mátti ráða, að Rússar hefðu ákveðið að veita lánið en síðar bart tilkynning þar sem áréttað var að samningaviðræður væru hafnar milli þjóðanna.

Davíð  sagði um þetta, að rússneski sendiherrann hefði hringt í sig fyrir klukkan 7 í morgun, og sagð að menn væru í ákveðnum stellingum.

Davíð sagðist hafa skilið það svo, að ekki væri talið að bann væri á því að segja frá þessu vinarbragði Rússanna. Síðar hefði verið talið að íslensk stjórnvöld hefðu gengið heldur langt á því stigi að útskýra málið í smáatriðum og einnig hefðu ekki allir í stjórnkerfinu í Moskvu verið með upplýsingar um málið. 

„Meginmálið er samt að það stefnir í viðræður, sem fjármálaráðherra Rússa segir að verði teknar með mjög jákvæðu hugarfari og það liggur fyrir að Pútín forsætisráðherra Rússa heimilaði með undirskrift sinni að í þessar viðræður verði talið," sagði Davíð og sagðist vera bjartsýnn á að samningar náist um lánið.

Davíð sagði, að náðst hefðu gjaldeyrisskiptasamningar við þrjár norrænar þjóðir í vor. Hann sagðist síðan hafa átt í margvíslegum viðræðum og bréfaskriftum við seðlabankastjóra, þar á meðal breska og evrópska seðlabankans og einnig bankastjóra seðlabankans í New York um lánafyrirgreiðslu eða gjaldeyrisskiptasamninga.

„Nú síðast vorum við komnir dálítið langt í viðræðunum og það var búið að bera það undir (Ben) Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. En niðurstaðan var sú eftir athugun Bandaríkjamanna að þeir ætluðu ekki að veita okkur sömu fyrirgreiðslu og Dönum, Norðmönnum og Svíum vegna þess að Íslendingar hefðu ekki sömu dollaravandræðin og hinar þjóðirnar," sagði Davíð.

Hann sagði að reynt hefði verið að útskýra það fyrir bandaríska seðlabankanum að það gæti skaðað Ísland að vera skilið útundan með þessum hætti en sennilega hefðu þeir ekki áttað sig á því samhengi.

Þegar Sigmar Guðmundsson, aðstoðarritstjóri Kastljóss, spurði hvort trúnaðarbrestur hefði orðið á milli Íslendinga og vinaþjóða þeirra sagði Davíð, að trúnaðarbresturinn væri sá, að menn hefðu allstaðar talið að íslenska bankakerfið væri orðið allt of stórt miðað við eðlilegar viðskiptaþarfir þjóðarinnar og stæðist ekki til lengdar, sérstaklega eftir að allir markaðir lokuðust.

„Bandaríkjamenn, hygg ég, horfðu á málin þannig: Það þarf óhemju fé handa Íslendingum ef þeir ætla að borga allar skuldir bankakerfisins," sagði Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert