„Málstaður okkar er réttmætur. Það var hann einnig árið 1975 þegar Ísland ákvað - einhliða og ólöglega - að lýsa yfir „bannsvæði" umhverfis landið. Erlendum togurum var bannað að veiða innan þessa svæðis."
Svona hefst pistill, sem Roy Hattersley, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Bretlands, skrifar í breska blaðið Guardian í dag, væntanlega til að benda á að Íslendingar gætu orðið erfiðir viðfangs í deilunni um Icesave bankareikingana.
Hattersley fór fyrir sendinefnd, sem breska stjórnin sendi hingað til lands haustið 1975 til að reyna að semja um lausn landhelgisdeilunnar, og segir farir sínar ekki sléttar í viðureigninni við Íslendinga:
„Þegar skipstjórar frá Grimsby hunsuðu tilskipunina klipptu íslensk varðskip í sundur togvírana og ollu þannig stórhættu á að sjómennirnir á þilfarinu yrðu skornir í tvennt þegar stálvírarnir þeyttust yfir þilfarið.
Allir í Whitehall (breska stjórnarráðinu) voru á einu máli um að Íslendingar - menntaðasta þjóð í heimi - myndi bregðast við tilboði um málamiðlun. Ég var valinn til að fara með tilboðið til Íslands. Ég snéri heim fullur samúðar í garð Neville Chamberlain - þótt í samanburði við Reykjavík hefðu menn mæst á jafnræðisgrundvelli í München.
Harold Wilson (þáverandi forsætisráðherra Breta) hafði talað skýrt. Það yrði að hætta átökum meðan á samningaviðræðunum stóð. Ef skorið yrði á togvír þegar breska sendinefndin dveldi á Íslandi ættum við að fara heim tafarlaust.
Við lentum í Reykjavík klukkan 4:30 og fengum þær fréttir að skorið hefði verið á tvo togvíra klukkan 4. Við ræddum saman og veltum því fyrir okkur hvort togvíraklippingin hefði ekki verið vísvitandi ögrun. Við töldum svo vera en ákváðum - á okkar breska hátt - að við myndum láta eins og ekkert hefði í skorist og halda samningaviðræðunum áfram. Það virtist sem þessi mýkt okkar hefði skilað árangri. Fyrir fyrsta fundinn var farið í ferð umhverfis Ísland.
Hún hófst á sögukennslu. Öll íslenska þjóðin ætti ættir að rekja til nokkurra írskra útlaga, sem rændu álíka mörgum konum og héldu út í óvissuna til að leita skjóls fyrir óvinum sínum. Aðeins fólk með óbugandi viljastyrk hefði getað lifað af á kletti í Norður-Atlantshafi.
Þarna hefði orðið til þjóð víkinga sem sigldu um heiminn á opnum bátum, rændu og rupluðu. Þegar þeir uppgötvuðu að þeir hefðu lent í Feneyjum í stað Konstantínópel, rændu þeir og rupluðu eftir sem áður því það var þeirra atvinna. Mér létti, þegar fyrirlesturinn fór að snúast um bókmenntir og Íslendingasögurnar - sem allar bera titla á borð við Blóð í snjónum.
Ferð okkar um eyjuna hófst á staðnum þar sem elsta þing heims var stofnað. Þingmennirnir, sem komu fyrst saman þar árið 930, hljóta að hafa verið stórbrotnir. Þeir rökræddu í nístingskulda sitjandi á oddhvössum klettum sem náttúran hefur mótað umhverfis ísilagt vatn.
Nálægt þingstaðnum var Drekkingarhylur en í hann var (að sögn leiðsögumanns míns) kastað hórkonum. „Var það á sama tíma?" spurði ég. „Tíundu öld?" „Nei," svaraði hann. „Þeirri síðustu var drekkt 1912." Hann var að ljúga. En þessi skreytni hafði tilætluð áhrif. Ég gerði mér loks grein fyrir því, að viðræðurnar yrðu ekki auðveldar.
Þeir voru staðfastir. Dag eftir dag skipaði London mér að gefa örlítið meira eftir og dag eftir dag hafnaði íslenski utanríkisráðherrann (Einar Ágústsson) tilboðum mínum. Jim Callaghan (þáverandi utanríkisráðherra Bretlands) sagði mér dapur, að við hefðum ráðist inn í Ísland í síðari heimsstyrjöld og Henry Kissinger, (þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna) sem var beðinn um aðstoð, staðfesti hve hann var stórlega ofmetinn þegar það eina sem hann hafði til málanna að leggja var gömul tugga, sem hann hafði eftir Bismarck: „Hversu mikil sú harðstjórn er sem smáþjóðir geta beitt hinar stóru." Ég hélt heim og ofsóknirnar gegn togurunum héldu áfram.
Þegar Ísland krafðist þess að viðræðurnar héldu áfram kom breska sendinefndin saman í Glasgow með nýtt umboð. Aðstoðarlandbúnaðarráðherra bað mig: Ekki gefa eftir. Ég gaf stöðugt eftir en Íslendingarnir ekki. Á fjórða degi ákvað ég að halda heim. Flugmaður leiguflugvélarinnar okkar kom inn í farþegaklefann til að segja okkur, að 20 árum áður hefði ég nefbrotið hann í knattspyrnuleik. Þegar hann bætti við, að við hefðum verið í sama liði virtist renna upp fyrir hinum nefndarmönnunum hvers vegna þorskastríðið hefði breyst í innbyrðis deilur Breta. Við skulum vona, að Alistair Darling gleymi aldrei í hvoru liðinu hann er."