Lögmenn olíufélaganna Kers, Skeljungs og Olís eru ósáttir við matsgerð Guðrúnar Johnsen, hag- og tölfræðings við Háskólann í Reykjavík, sem Hjördís Halldórsdóttir, lögmaður Alcan á Íslandi, hefur lagt fram til að sýna fram á tjón Alcan af völdum samráðs olíufélaganna.
Í matsgerðinni kemur fram að tjón Alcan hefði verið um 250 milljónir króna miðað við verðlag áranna 1993 til og með meirihluta árs 2001. Hæstiréttur hefur staðfest með dómi í máli Sigurðar Hreinssonar, trésmiðs á Húsavík, gegn Keri, áður Olíufélaginu, að samráð olíufélaganna á fyrrnefndu tímabili hefði valdið viðskiptavinum félaganna fjárhagslegu tjóni.
Fyrirtaka í máli Alcan gegn olíufélögunum fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag. Þá rennur út frestur sem lögmenn olíufélaganna höfðu til að leggja fram beiðni um að yfirmat yrði unnið. Ekki liggur fyrir hvort þeir óska eftir lengri fresti.
Hjördís Halldórsdóttir, lögmaður Alcan, sagði mat Guðrúnar hafa leitt í ljós að tjónið vegna samráðsins væri nokkru meira en áður hefði verið talið. „Tjónið hafði áður verið reiknað um 186 milljónir króna en mat Guðrúnar sýnir að tjónið var umtalsvert meira,“ sagði Hjördís í samtali við mbl.is.
Telma Halldórsdóttir, lögmaður Kers, segir lögmenn olíufélaganna sammála um að grunnforsendur matsgerðarinnar sem Alcan hefur lagt fram séu ekki nógu traustar til að varpa ljósi á raunverulegt tjón af völdum samráðsins. Hafa lögmennirnir óskað eftir því að yfirmat, sem fer yfir matsgerðina sem Alcan hefur lagt fram, verði unnið. Sérstaklega er það samanburður við olíumarkað í Alaska sem lögmennirnir telja ekki til þess fallinn að gefa rétta mynd af stöðu mála hér á landi, á þeim tíma sem félögin höfðu samráð.
„Við teljum Alaska-markað ekki samanburðarhæfan að nokkru leyti,“ sagði Telma í samtali við mbl.is. Meðal þess sem olíufélögin telja ábótavant er að birgðakostnaður sé mun minni í Alaska heldur en hér á landi og hafi því minni áhrif á söluverð.
Ekki ljóst að samráðið hafi valdið tjóni
Forsvarsmenn Alcan byggja mál sitt öðru fremur á því að samráð olíufélaganna hafi valdið tjóni og því beri félögunum að greiða fyrirtækinu bætur. Lögmenn olíufélaganna hafa haldið því fram í málsvörn fyrir dómi, á öðrum málum er tengjast samráði olíufélaganna, að ekki sé ljóst að samráðið hafi valdið tjóni. Því hafa dómarar hafnað, bæði í héraði og Hæstarétti.
Alcan var meðal stærstu viðskiptavina olíufélaganna á fyrrnefndu tímabili en húsleit samkeppnisyfirvalda 18. desember 2001 batt enda á samráðið. Olíufélögin voru að lokum sektuð um 1,5 milljarða króna vegna þess. Olíufélögin hafa þegar farið mál við íslenska ríkið og samkeppnisyfirvöld vegna sektarinnar og er það mál enn til umfjöllunar í dómskerfinu.
Alcan er stærsta fyrirtækið sem farið hefur í mál við olíufélögin vegna samráðsins en áður hafði útgerðarfélagið Dala-Rafn í Vestamannaeyjum leitað réttar síns vegna málsins. Það mál er enn til meðferðar í dómskerfinu. Þá eru nokkur sveitarfélög með það til skoðunar að leita réttar síns vegna samráðsins, en Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem hefur fengið bætur frá olíufélögunum vegna samráðs. Það mál náði einungis til útboðs á vegum borgarinnar en ekki almennra viðskipta.
Mál íslenska ríkisins gegn olíufélögunum er enn í undirbúningi en sérfræðingar verða fengnir til þess að meta tjón ríkisins vegna samráðsins. Þeirri vinnu lýkur senn, samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, hæstaréttarlögmanni hjá Landslögum, sem fer með málið fyrir hönd ríkisins.