Forsetabók afturkölluð úr prentsmiðju

Bók Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings um forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar var afturkölluð úr prentsmiðju vegna bankahrunsins á Íslandi og skipbrots íslensku útrásarinnar.  Forsetinn var hliðhollur íslensku viðskiptalífi og hefur stundum verið kallaður guðfaðir íslensku útrásarinnar. Þegar bókin var komin í prentsmiðju hrundi hinsvegar íslenska bankakerfið eins og spilaborg.

Guðjón Friðriksson segir að sér hafi þótt vissast að skrifa bæði nýjan formála og eftirmála í ljósi þess en forsetinn hafi ekki óskað eftir breytingum á því sem eftir honum væri haft. Guðjón Friðriksson byggir bókina á viðtölum við Ólaf Ragnar, samferðamenn hans stjórnmálamenn og fræðimenn. Hann  segist ekki líta á sig sem málsvara Ólafs Ragnars Grímssonar, menn verði bara að meta það, hver fyrir sig, hvort hann hafi gengið of langt í stuðningi sínum við íslensku útrásina. Ólafur Ragnar sé tvímælalaust umdeildasti forseti sem Íslenska þjóðin hafi átt.

Ýmsar nýjar upplýsingar koma fram í bókinni meðal annars um samskipti Ólafs Ragnars Grímssonar og Davíðs Oddssonar sem hafi verið verri en fólk gerði sér grein fyrir en um það vitna meðal annars áður óbirt bréf sem fóru þeim á milli. Bókin kemur út innan fárra vikna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert